Erlent

Synti Amazon-fljótið endilangt

Rúmlega fimmtugur Slóveni afrekaði um helgina fyrstur allra að synda niður Amazon fljótið eins og það leggur sig. Leiðin er meira en fimm þúsund kílómetrar.

Það tók hinn fimmtíu og tveggja ára gamla Martin Strel 65 daga að synda allt Amazon fljótið. Þegar Slóveninn kom á leiðarenda var hann algjörlega úrvinda, þjakaður af ofskynjunum, of háum blóðþrýstingi, magaverkjum, ógleði og miklum krampa í vöðvum. Skyldi engan undra, enda meira en fimm þúsund kílómetrar að baki, þar sem Strel þurfti meðal annars að sneiða hjá hættulegum pírana fiskum og alls kyns flúðum.

Ef afrekið fæst staðfest hjá heimsmetabók Guinness hefur Slóveninn, sem gengur undir nafninu "fiskmaðurinn", enn og aftur slegið heimsmetið í langsundi svo um munar. Hann hefur áður synt Dóná í Evrópu á 58 dögum og Mississippi fljót í Bandaríkjunum og sló síðast heimsmetið þegar hann synti ánna Yangtse í Kína, sem er rökslega fjögur þúsund kílómetrar að lengd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×