Erlent

Kosningabaráttan í Frakklandi formlega hafin

Segolene Royal, sem vonast til þess að verða fyrsti kvenforseti Frakklands, sést hér á landbúnaðarsýningu í marsbyrjun.
Segolene Royal, sem vonast til þess að verða fyrsti kvenforseti Frakklands, sést hér á landbúnaðarsýningu í marsbyrjun. MYND/AFP
Kosningabaráttan fyrir fyrstu umferð forsetakosninganna í Frakklandi 22. apríl er hafin. Tólf frambjóðendur ætla sér að feta í fótspor Jacques Chirac, hins aldna forseta sem nú lætur af völdum. Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægri flokksins UMP þykir líklegastur til sigurs. Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista fylgir honum fast á hæla. Ekki langt á eftir þeim er Francis Bayrou og Jean-Marie Le Pen situr í fjórða sæti.

Auglýsingaborðar frambjóðenda voru hengdir upp í kringum hina 85 þúsund kjörstaði snemma í morgun. Frambjóðendum er síðan úthlutaður auglýsingatími í sjónvarpi og útvarpi samkvæmt ströngum jafnræðisreglum. Hver þeirra fær 45 mínútur í loftinu.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum hefur tæplega helmingur franskra kjósenda gert upp hug sinn, eða um 42 prósent þeirra. Það er tíu prósent meira en á sama tíma fyrir forsetakosningarnar árið 2002.

Búist er við því að enginn frambjóðenda nái hreinum meirihluta í fyrstu umferð kosninganna. Ef sú er raunin verður kosið á milli tveggja efstu frambjóðendanna í annarri umferð þann 6. maí. Alls hafa 44,5 milljónir skráð sig á kjörskrá en það er metfjöldi fólks. Stjórnmálafræðingar segja að það gæti verið vegna þess að fólk óttist að Jean-Marie Le Pen, frambjóðandi hægriöfgamanna, gangi vel en hann lenti í öðru sæti árið 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×