Erlent

Kamelljónasmyglari roðnaði í tollinum

MYND/Getty Images

Króatískur maður var gripinn glóðvolgur á alþjóðaflugvellinum í Zagreb með 175 kamelljón sem hann reyndi að smygla inn frá Tælandi. Tollverðirnir tóku eftir hreyfingu á poka Dragos Radovic þegar hann gekk í gegnum tollhliðið. Þegar þeir opnuðu pokann sáu þeir skriðdýrin sem eru í útrýmingarhættu.

Dragos sagði þeim að hann hefði valið kamelljónin vegna þess að erfitt væri að greina þau frá öðrum hlutum. Sölumaðurinn hefði sagt honum að dýrin skiptu um lit og aðlöguðu sig umhverfinu hverju sinni. Þannig yrðu þau ósýnileg. Það hefði greinilega ekki virkað.

Á fréttavef Ananova segir að Dragos hefði fengið sem svarar rúmum átta milljónum íslenskra króna fyrir dýrin á svörtum markaði. Hann borgaði hins vegar aðeins um 14 þúsund krónur fyrir þau á taílenskum markaði.

Dýralæknar voru kallaðir til. Þeir sögðu að dýrin væru undir andlegu álagi vegna flugsins og hefðu ofþornað. Þess vegna hefðu þau misst hæfileikann til að skipta um lit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×