Erlent

Danska lögreglan kvíðir innrás í Kristjaníu

Óli Tynes skrifar
Kristjanía tekur upp talsvert pláss í höfuðborginni og þar er verðmætt byggingarland.
Kristjanía tekur upp talsvert pláss í höfuðborginni og þar er verðmætt byggingarland.

Landssamband danskra lögreglumanna kvíðir því nokkuð að þurfa að gera innrás í frístaðinn Kristjaníu. Allt stefnir í að það verði gert á næstunni. Menn hugsa sem svo að ef urðu slík læti þegar eitt hús var rýmt á Nörrebro, hvað gerist þá þegar þarf að rýma 850 manna íbúðahverfi. Ólætin sem urðu þegar Ungdómshúsið var jafnað við jörðu kostuðu danska skattborgara um einn milljarð króna.

Svo margir lögreglumenn unnu sér þá inn þriggja til fjögurra vikna aukafrí, að landssambandið hefur efasemdir um að hægt verði að finna mannskap í aðra stóraðgerð. Yfirvöld hafa hótað að senda jarðýtur inn í hverfið og jafna það við jörðu, ef ekki semst. Húsin þar eru mörg hver í niðurníðslu.

Yfirmenn lögreglunnar eru þó ekki í neinum vafa. "Ef við fáum fyrirmæli um að fara inn í Kristjaníu þá gerum við það," segir Fleming Steen Munch, talsmaður lögreglunnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd nær Kristjanía yfir stórt svæði í hjarta Kaupmannahafnar og þolinmæði stjórnvalda gagnvart fríríkinu er á þrotum.

Þau vilja að Kristjanía verði venjulegt íbúðahverfi í höfuðborginni og ætla að byggja þar 400 nýjar íbúðir. Samkvæmt tillögum þeirra mega núverandi íbúar búa þar áfram, en þeir verða þá að borga eðlilega húsaleigu, þó undir markaðsverði. Þessu hafa íbúar Kristjaníu hafnað og því stefnir nú í innrás lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×