Erlent

Grjóti og flugeldum kastað að sendiráðinu

Vonir standa til að deilan, vegna bresku sjóliðanna sem Íranar hafa í haldi sínu, leysist á næstu dögum eftir að greint var frá því að beinar viðræður á milli ríkjanna standi yfir. Mótmælendur köstuðu grjóti og flugeldum að breska sendiráðinu í Teheran í dag.

Það var æstur múgur sem safnaðist fyrir framan sendiráð Bretlands í Teheran í dag til að lýsa andúð sinni á framgöngu Breta í deilunni um sjóliðana fimmtán. Flugeldum og grjóti var varpað að húsinu og til að allir hefðu úr nægu að moða kom vörubíll fullur af grjóti á vettvang. Þótt mótmælendurnir hafi látið ófriðlega slasaðist þó enginn í hamaganginum.

Nú er rúm vika síðan sjóliðarnir voru teknir fastir í Shatt al-Arab-ósnum á mörkum Írans og Íraks og á þeim tíma hafa ríkisstjórnir landanna látið brigslyrðin ganga á víxl. Í dag upplýsti hins vegar Des Browne varnarmálaráðherra Bretlands að beinar viðræður stæðu yfir á milli ríkjanna um málið. Bretar eru sagðir reiðubúnir til að ábyrgjast að framvegis sigli skip sín ekki í óleyfi inn í íranska lögsögu en þeir vilja ekki viðurkenna að skip sjóliðanna hafi gert það, hvað þá biðjast afsökunar á því. Hvort þetta dugar til að leysa deiluna kemur í ljós á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×