Erlent

Kaþólskur prestur dæmdur í fangelsi

MYND/AP

Kaþólskur prestur í víetnam hefur verið dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir aðgerðir gegn stjórnvöldum í landinu. Presturinn hefur eytt rúmum áratug í fangelsi frá því snemma á níunda áratugnum, fyrir sömu sakir.

Faðir Thadeus Nguyen Van Ly hefur lengi verið andvígur kommúnistastjórninni. Réttarhöldin í gær stóðu yfir í hálfan dag. Í þrígang þurfti að fjarlægja prestinn úr réttarsalnum vegna mótmæla þar sem hann öskraði hástöfum.

Hann var fluttur í annað herbergi á meðan dómarinn las dómsúrskurðinn. Hann kveður einnig á um fimm ára stofufangelsi eftir fangelsisvistina.

Fjórir aðrir voru einnig dæmdir í málinu. Þeir eru sagðir vitorðsmenn prestsins. Tveir þeirra fengu fimm og sex ára dóma, og tvær konur fengu skilorðsbundna dóma upp á tvö og fjögur ár.

Fréttamenn og stjórnarerindrekar fengu að fylgjast með réttarhöldunum í öðru herbergi dómshússins í gegnum myndavélar. Þeim var þó hleypt inn í réttarsalinn nokkrar mínútur við upphaf réttarhaldanna og þegar dómsorð var kveðið upp.

Ly losnaði síðast úr fangelsi fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×