Erlent

Tíu ára fangelsi fyrir að móðga kónginn

Oliver Jufer á leið úr réttarsalnum í dag.
Oliver Jufer á leið úr réttarsalnum í dag. MYND/AFP
Svissneskur maður var í dag dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að móðga konung Taílands. Oliver Jufer, 57 ára, var dæmdur fyrir að hafa eyðilagt fimm myndir af konunginum með því að spreyja á þær. Jufer var fullur þegar hann spreyjaði á myndirnar.

Jufer átti yfir höfði sér allt að 75 ára fangelsi en dómurinn var 20 ár. Hann var síðan styttur um helming þar sem Jufer játaði brot sín. Dómarinn sagði að nú hefði rétturinn refsað honum fyrir að móðga kónginn, sem væri sannarlega alvarlegur glæpur.

Saksóknarar neituðu að tala við fjölmiðla eftir dóminn af ótta við að móðga kónginn. Innlendir fjölmiðlar hafa nær engar fréttir flutt af málinu af sömu ástæðu.

Svissnesk stjórnvöld ætla sér ekki að gera neitt í málinu þar sem farið var að lögum Taílands í einu og öllu þegar Jufer var dæmdur. Þar að auki hefur hann búið í Taílandi síðastliðin tíu ár og er meðal annars giftur taílenskri konu.

Konungurinn nýtur mikillar virðingar í Taílandi og sumir segja að hann hafi átt þátt í því þegar forsætisráðherra landsins var velt af stóli á síðasta ári. Ein kenningin er að herinn hafi tekið völdin vegna þess að forsætisráðherrann hafi móðgað kónginn. Valdaránið fór í það minnsta fram með samþykki konungs. Konungurinn sagði þó nýverið að hugsanlega mætti gagnrýna hann þar sem stundum gæti hann haft rangt fyrir sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×