Erlent

Forseti Suður-Afríku að miðla málum í Zimbabwe

Jónas Haraldsson skrifar
Mugabe þegar hann kom til fundahalds fyrr í dag.
Mugabe þegar hann kom til fundahalds fyrr í dag. MYND/AFP

Afrískir leiðtogar samþykktu í dag að forseti Suður-Afríku, Thabo Mbeki, muni reyna að miðla málum í Zimbabwe. Þetta var ákveðið á leiðtogafundi sem haldinn var í Dar Es Salaam í Tanzaníu. Þeir hvöttu vesturveldin einnig til þess að hætta refsiaðgerðum gegn landinu. Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur undanfarið sætt harðri gagnrýni alþjóðasamfélagsins fyrir meðferð sína á stjórnarandstöðu landsins.

Í lok fundarins báðu þeir Breta einnig að virða skuldbindingar sínar við Zimbabwe en Bretar hafa lofað að styrkja landakaup ríkisins og aðstoða þannig við endurúthlutun lands. Mugabe hefur lengi krafist þess að Bretar geri það.

Leiðtogafundurinn var á vegum Southern African Development Community (SADC), eða Þróunarsamtökum ríkja í suðurhluta Afríku. Í samtökunum eru alls 14 ríki. Hingað til hafa þau lítið gagnrýnt Mugabe og stjórnarhætti hans. Leiðtogar samtakanna ákváðu þó að halda þennan tveggja daga neyðarfund til þess að takast á við ástandið í Zimbabwe eftir mikla og háværa gagnrýni alþjóðasamfélagsins.

Í Zimbabwe ríkir mikil óánægja hjá almenningi þar sem gríðarmikið atvinnuleysi er í landinu, eða um 80 prósent. Verðbólga er einnig komin yfir 1.700 prósent. Mugabe hefur verið við völd í landinu í 27 ár, eða síðan það fékk sjálfstæði árið 1980. Hann ætlar sér að bjóða sig fram í forsetakosningum árið 2008 þar sem hann telur að Zimbabwe geti ekki án hans verið. Mugabe er 83 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×