Erlent

Yfir 70 létust þegar tankbíll brann

Fleiri en 70 manns létu lífið í slysi í Nígeríu í dag. Fjöldi fólks var að stela eldsneyti úr olíubíl þegar að það kviknaði í honum. Atvikið átti sér stað í norðurhluta landsins. 101 sluppu með misalvarleg meiðsli.

Olíubíllinn var að keyra þegar að bílstjórinn missti stjórn á bílnum og velti honum. Eldsneyti lak þá úr tanki hans og um leið komu hundruð manns að reyna að ná sér í ódýrt bensín.

Ekki er óalgengt að fólk í Nígeríu reyni að verða sér úti um ódýrt eldsneyti með því að stela því úr bensínleiðslum eða tankbílum eins og núna. Oftar en ekki verða mannskæð slys út af athæfinu. Þúsundir hafa látið lífið í slysum af þessu tagi á síðastliðnum tíu árum. Versta atvikið var þegar að fleiri en 1.000 manns létu lífið þegar að bensínleiðsla sprakk eftir að fjöldi manns hafði gert göt á hana.

Stjórnvöld fordæma yfirleitt athæfi þeirra sem látast eða slasast í slíkum slysum og segja fólkið einfaldlega gráðugt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×