Erlent

Ákæru gegn Rumsfeld vísað frá

Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. MYND/AP
Bandarískur dómstóll hefur vísað frá málsókn á hendur Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um að fangar hafi verið pyntaðir í Írak og Afganistan. Rétturinn viðurkenndi að fangarnir hefðu verið pyntaðir en að þar sem þeir væru ekki bandarískir ríkisborgarar væru þeir ekki verndaðir af bandarísku stjórnarskránni. Einnig sagði í dómnum að Rumsfeld nyti friðhelgi gegn svona málsóknum.

Ákærum gegn yfirmönnum í fangelsum í Írak og Afganistan var einnig vísað frá. Dómarinn sagði þó að honum þætti meðferðin á föngunum hafa verið hræðileg. Fangarnir sem höfðuðu málið voru níu talsins og voru þeir beittir alls konar ofbeldi. Þeir voru stungnir með hnífum, gefin rafstraumur og sviptir svefni. Þeir voru einnig niðurlægðir á kynferðislegan hátt.

Ákveðið var að fara í mál við Rumsfeld þar sem hann undirritaði árið 2002 lög sem að heimiluðu nýjar aðferðir við yfirheyrslur fanga í Guantanamo og Abu Ghraib fangelsunum. Þeir sem höfðuðu það voru mannréttindasamtök í Bandaríkjunum og sögðu þau að Rumsfeld hefði leitt hjá sér ýmsar vísbendingar um að ekki væri allt með feldu í fangelsunum tveimur. Rumsfeld hefur þegar beðist afsökunar vegna pyntinganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×