Erlent

Sjóliðarnir sagðir hafa játað

Íranar segja breska sjóliða, sem teknir voru höndum á Persaflóa í gær, hafa viðurkennt að hafa siglt ólöglega inn í íranska landhelgi þar sem þeir voru teknir. Bretar segja þetta þvætting. Þeir hafi verið við eftirlit á írösku hafsvæði. Þess er krafist að mennirnir verði þegar látnir lausir.

Sjóliðarnir 15 voru fluttir til Teheran í morgun og yfirheyrðir fram eftir degi. Ali Reza Afshar, herforingi í íranska hernum, segir þá hafa játað að hafa siglt inn í íranska landhelgi.

Bretar segja þetta alrangt. Sjóliðarnir hafi verið á ferð með herskipinu HMS Cornwall við eftirlit í íraskri landhelgi í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þeir hafi nýlokið að kanna skip nærri umdeildu Shatt al-Arab siglingaleiðinni þegar írönsk herskip hafi umkringt þá. Hermenn hafi ógnað þeim með byssum og tekið þá höndum.

Fulltrúar Evrópusambandsríkja funda nú í Berlín í tilefni það að á morgun er hálf öld liðin frá undirritun Rómarsáttmálans og stofnun Efnahafsbandalags Evrópu, forvera Evrópusambbandsins. Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þjóðverja, sem fara nú fyrir sambandinu, sagði að Bretar gætu treyst á stuðning sambandsins og utanríkismálastjóri þess tók í sama streng.

Írakar virðast þó styðja fullyrðingar Írana. Hakim Jassim, stórliðsforingi, sagðist hafa fengið þær upplýsingar hjá íröskum sjómönnum að þeir hafi sér bresk skip á svæði þar sem írakar fari ekki. Jassim vissi ekki nákvæmlega hvar. Þar hafi bátar umrkingt þá en sjómennirnir hafi ekki vitað hvaðan þeir væru.

Þessi deila er ekki sú eina sem kemur Írönum í fjölmiðla þennan laugardaginn. Í kvöld greiða þau ríki sem eiga sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna atkvæði um ályktun sem felur í sér frekari refsiaðgerðir gegn Írönum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra. Hún felur í sér bann við vopnaútflutningi frá Íran auk þess sem eiginir þeirra sem tengjast kjarnorku- og eldflaugaáætlun Írana verði frystar. Fastlega er búist við að ályktunin fái einróma samþykki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×