Erlent

Friður kominn á í Kinshasa

Lítið barn sem þurfti að leita skjóls ásamt fjölskyldu sinni í búðum friðargæsluliða.
Lítið barn sem þurfti að leita skjóls ásamt fjölskyldu sinni í búðum friðargæsluliða. MYND/AFP

Kongóski herinn hefur náð að stilla til friðar í höfuðborginni Kinshasa á ný. Síðastliðna tvo daga hafa harðir bardagar átt sér stað á milli fylgismanna Jean-Pierre Bemba, stjórnarandstöðuleiðtoga, og stjórnarhersins. Bemba, sem er fyrrum uppreisnarleiðtogi, hefur verið sakaður um landráð af yfirvöldum í Kongó.

Friðargæsluliðar fluttu fleiri en 900 manns á brott frá svæðum þar sem bardagar áttu sér stað. Einhverjar fréttir bárust af því að fólk hefði rænt verslanir víða í Kinshasa. Bemba leitaði hælis í sendiráði Suður-Afríku þar sem hann óttaðist að stjórnarliðar væru að reyna að drepa sig.

Átökin hófust í gær þegar að um 500 fylgismenn Bemba hunsuðu tilskipun stjórnvalda um að leggja niður vopn en stjórnvöld hafa fyrirskipað að Bemba megi aðeins hafa tólf vopnaða verði. Þetta eru fyrstu átökin í landinu síðan að forsetakosningunum lauk í október en þær áttu að binda enda á nærri fimm ára borgarastyrjöld í landinu.

Þess má geta að um Austur-Kongó, eða Lýðræðislega lýðveldið Kongó (Democratic Republic of Congo) er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×