Erlent

Öruggt vatn er jafnréttismál

Tæpur fimmtungur jarðarbúa hefur ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og fjórir af hverjum tíu hafa ekki aðgang að viðunandi frárennslisaðstöðu. Hreint vatn er brýnasta jafnréttismál þróunarlandanna að mati fræðslufulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar.

Fá lönd búa við viðlíka ofgnótt vatns eins og við Íslendingar, raunar er vatn munaðarvara fyrir stóran hluta mannkyns. Staðreyndirnar tala sínu máli. Talið er að fimm þúsund börn láti lífið á hverjum einasta degi vegna skorts á öruggu neysluvatni. Nálega fimmtungur mannkyns er í þeirri hörmulegu stöðu að hreint og öruggt vatn er ekki innan seilingar. Sameinuðu þjóðirnar hvöttu til þess í dag, á alþjóðlegum degi vatnsins að baráttan gegn vatnsskorti yrði sett í öndvegi. Af þessu tilefni efndu Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, og fleiri aðilar til ráðstefnu í Orkuveituhúsinu í dag. Þar var Hjálparstarfi kirkjunnar afhentur styrkur til smíði fjögurra brunna á starfssvæðum þess í Afríku. Anna Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfsins segir að aðgangur að öruggu vatni skipti sköpum upp á almenna heilbrigði, svo og skilvirk frárennsliskerfi. Þótt það liggi hins vegar ekki í augum uppi þá er slíkur aðgangur einnig brýnt jafnréttismál. Konur þurfa oftar en ekki að sækja vatn, oft langar leiðir og það tefur það frá námi og öðrum störfum. Þá segir Anna að brottfall stúlkna úr skólum í þróunarlöndunum sé mikið, meðal annars vegna þess að þær hafi þar ekki aðgang að salernum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×