Erlent

Starbucks og McCartney: Gott kaffi

Sir Paul er kominn í samstarf með Starbucks og mun framvegis gefa út á þeirra vegum.
Sir Paul er kominn í samstarf með Starbucks og mun framvegis gefa út á þeirra vegum. MYND/AFP
Bandaríska kaffifyrirtækið Starbucks hefur sagt frá því að fyrsti tónlistamaðurinn sem skrifar undir hjá nýju plötufyrirtæki þeirra sé Sir Paul McCartney. Fyrirtækið lýsti því yfir í síðustu viku að það myndi brátt leita samninga við listamenn en það hefur áður aðeins gefið út tónlist sem hefur áður komið út.

Sir Paul sagði við tækifærið að líklegt væri að fyrsta platan hans hjá hinu nýja útgáfufyrirtæki kæmi út í júní á næsta ári. Hann sagði jafnframt að hann hefði unnið að plötunni í þó nokkurn tíma.

Starbucks rekur 13.000 verslanir um allan heim. Þar af eru fjórar verslanir þar sem viðskiptavinir geta keypt tónlist og brennt hana á disk á meðan þeir bíða eftir kaffinu. Starbucks er einnig komið með sérstaka síðu í i-Tunes tónlistarverslun Apple fyrirtækisins.

Starbucks ætlar sér að nota markaðsaðstöðu sína til þess að selja tónlistina til viðskiptavina. Þeir hafa lengi gert það með áður útgefna tónlist og fékk ein platan sem þeir settu saman og seldu, Genius Loves Company með Ray Charles, Grammy verðlaun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×