Erlent

Glerbrú yfir Grand Canyon

Glerbrúin er kölluð Skýjagangan.
Glerbrúin er kölluð Skýjagangan. MYND/AP

Mikil brú með glergólfi hefur verið reist á barmi Miklagljúfurs í Bandaríkjunum og nær hún rúma tuttugu metra fram af brúninni. Þegar litið er í gegnum glergólfið blasir gljúfurbotninn við, einum og hálfum kílómetra fyrir neðan. Tæpast fyrir lofthrædda. Það var bandarískur kaupsýslumaður sem reisti brúna og hún kostaði rúma tvo milljarða króna.

David Jin vonast til að fá það fé til baka með því að rukka ferðamenn um 1800 krónur fyrir að ganga yfir U-laga brúna. Alls geta 120 manns verið á brúnni í einu. Til þess að byggja brúna þurfti David Jin að fá sérstakt leyfi hjá ættbálki Hualapai indíána, en hún er á verndarsvæði þeirra.

Það var ættarhöfðingi indíánanna sem fyrstur gekk út á brúna ásamt geimfaranum fyrrverandi Buzz Aldrin. "Ég get svarið að ég heyrði braka í glerinu," sagði indíánahöfðinginn Charlie Vaughn, hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×