Erlent

Aur flæddi niður fjallshlíðina

Aur flæddi niður hlíðar eldfjallsins Ruapehu á Nýja Sjálandi í dag og eirði engu, ekki í fyrsta sinn. Íbúar, nærri fjallinu, eru vanir þessum hamförum og búnir undir þær.

Ruapehu er virk eldkeila. Fjallið gýs yfirleitt á hálfrar aldar fresti, síðast fyrir rétt rúmum áratug. Þess á milli gerist það að leðja og aur rennur úr stöðuvatni í gíg fjallsins niður hlíðar þess og eirir engu. Eitraðar gufur stíða upp frá eðjunni. Hamfarir þessar eru kallaðar Lahars-flóð af innfæddum og hafa valdið töluverðri eyðileggingu og manntjóni.

Verst var það árið 1953 þegar aurstraumurinn hrifsaði með sér brú og járbrautarlest sem var á leið þar yfir steyptist ofan í beljandi leðjuna. 151 týndi lífi. Síðan þá hefur verið sett upp viðvörunarkerfi sem virkaði vel í dag því engar fréttir hafa borist af manntjóni eða miklum skemmdum eftir að stífla brast í morgun og aurinn flæddi fram. Fólk var flutt frá helstu hættusvæðum, vegum og lestarteinum lokað.

Chris Carter, ráðherra náttúruverndarmála í Nýja Sjálandi, segir að vel hafi tekist að verja íbúa, kerfið hafi virkað. Það þurfi að tryggja til framtíðar þar sem mikil þróun verði á landslagi við fjallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×