Erlent

Forseti Írans fær að ávarpa öryggisráðið

Ahmadinejad ætlar sér að verja kjarnorkuáætlun þjóðar sinnar fyrir öryggisráðinu.
Ahmadinejad ætlar sér að verja kjarnorkuáætlun þjóðar sinnar fyrir öryggisráðinu. MYND/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag beiðni Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, um að fá að verja kjarnorkuáætlun þjóðar sinnar áður en atkvæðagreiðsla um refsiaðgerðir gegn Íran fer fram í ráðinu. Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær atkvæðagreiðslan fer fram.

Tillagan sem á að greiða atkvæði um tekur fyrir alla vopnasölu til Írans og frystir eignir 28 einstaklinga og fyrirtækja, þar á meðan banka í eigu íranska ríkisins. Í henni er sagt að ef Íran hætti ekki auðgun úrans innan sextíu daga frá samþykkt tillögunnar muni landið eiga von á enn frekari refsiaðgerðum.

Ef Ahmadinejad á að ávarpa öryggisráðið verða Bandaríkin að gefa honum vegabréfsáritun. Hingað til hefur það verið gert þegar hann hefur farið á fundi Sameinuðu þjóðanna og ekki er búist við því að breyting verði á því núna.

Íranar segjast vera að auðga úran í friðsömum tilgangi og að þeir ætli sér eingöngu að nota það til orkuframleiðslu. Vesturveldin óttast hins vegar að þeir ætli sér að framleiða kjarnorkuvopn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×