Erlent

Íran næst

Íraksstríðið var ólöglegt að mati Hans Blix, fyrrverandi yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið á nornaveiðum í aðdraganda stríðsins og margt sé líkt með honum og stöðunni í kjarnorkudeilunni við Írana nú.

Í nýlegu viðtali við Sky fréttastöðina segir Blix Bandaríkjamenn hafa verið á nornaveiðum í aðdraganda Íraksstríðsins og viljað túlka allt sem sönnun fyrir gjöreyðingarvopnaeign Íraka. Hann segist sannfærður um að innrásin hafi verið ólögleg. Allt sem hafi gerst í Írak síðan hafi verið harmleikur og það eina jákvæða að Saddam Hússein, fyrrverandi forseti, hafi horfið af sjónarsviðinu.

Blix segir það ekki koma sér á óvart ef margir ráðamenn í Washington reynist hlynntir innrás í Íran. Margt í kjarnorkudeilunni við Írana minna hann á aðdraganda Íraksstríðsins en ýmislegt sé þó ólíkt. Þrýstingur á Írana sé að aukast. Farið sé til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og óskað eftir ályktunum um frekari refsiaðgerðir. Líklegt sé að gripið verði til þeirra. Rússar og Kínverjar verði án efa andvígir hernaðaríhlutun að mati Blix. Hann segist vona að meirihluti ríkja í ráðinu verði á sama máli. Þá telur hann að Bandaríkjamenn muni svara til að ráðið sé vanmáttugt og einhver ábyrgari aðili verði að gera eitthvað og því ráðist þeir á Íran.

Blix segir Írana eiga langt í land með að framleiða kjarnorkuvopn. Hann segir mikilvægt að deiluaðilar setjist þegar að samningaborðinu. Bandaríkjamenn verði að láta af kröfum sínum, en þær komi í veg fyrir viðræður. Íranar segist tilbúnir til að ræða málin, þar á meðal auðgun þeirra á úrani. Blix spyr því hvers vegna eigi ekki að ræða við þá og láta af tilganglausum diplómatískum leik sem hamli viðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×