Erlent

Rumsfeld lagði til stórfelldar breytingar í Írak

Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna MYND/AP

Donald Rumsfeld, lagði til meiriháttar breytingar á stefnunni í Írak rétt áður en hann lét af embætti, að sögn bandaríska blaðsins New York Times. Hann sagði ljóst að það sem Bandaríkin væru að gera í Írak gengi ekki nógu vel.

Meðal þess sem varnarmálaráðherrann fyrrverandi lagði til var að stórauka þjálfun íraskra hermanna, hafa fleiri íraska hermenn með bandarískum hersveitum til að hjálpa til við þýðingar, og hrinda af stað stófelldri atvinnubótavinnu fyrir írösk ungmenni.

Rumsfeld vildi fækka bandarískum herstöðvum úr 55 niður í 10-15 á nokkrum næstu mánuðum og hafa bandaríska hermenn einungis í héruðum þar sem sérstaklega væri óskað eftir þeim.

Hann vildi einnig láta bandaríska hermenn hætta að standa vörð á sérstaklega hættulegum átakasvæðum, og vera þess í stað tilbúnir við viðbragðssveitir sem gætu komið snarlega til hjálpar ef Írakar réðu ekki við ástandið. Þessar og fleiri tillögur lagði Rumsfeld fram tveim dögum áður en hann lét af embætti varnarmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×