Handbolti

Valur í kjör­stöðu gegn ÍR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hafdís svo gott sem lokaði markinu í kvöld.
Hafdís svo gott sem lokaði markinu í kvöld. Vísir/Diego

Valur er einum sigri frá því að tryggja sér sæti í úrslitum Olís-deildar kvenna eftir annan stórsigur á ÍR.

Fyrsti leikur liðanna var vægast sagt óspennandi þar sem Valur var mikið mun betra liðið frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og komst meðal annars 13-1 yfir. Það sama var upp á teningnum í kvöld þó ÍR-ingar hafi boðið upp á betri frammistöðu en í fyrsta leik liðanna. Þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks í Breiðholti var staðan 8-19.

Síðari hálfleikurinn var nokkuð svipaður og lauk leiknum með þægilegum sigri gestanna, lokatölur 19-32.

Hafdís Renötudóttir varði 12 af þeim 24 skotum sem hún fékk á sig í marki Vals og var því með 50 prósent markvörslu. Thea Imani Sturludóttir var markahæst með 8 mörk í liði Vals, þar á eftir komu Þórey Anna Ásgeirsdóttir með 7 mörk og Lovísa Thompson með 6 mörk.

Hjá ÍR skoraði Katrín Tinna Jensdóttir 6 mörk úr jafn mörgum skotum á meðan Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×