Innlent

Byssu­maðurinn hafi miðað á aðra í hópnum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Vísir/Arnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað í gær vegna tilkynningar um ungmenni með skotvopn. Byssumannsins er enn leitað. Hann meðhöndlaði byssuna í kringum hóp annarra ungmenna og hefur lögreglu tekist að bera kennsl á einhver þeirra. 

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um að einstaklingur væri að meðhöndla skammbyssu á almannafæri í hverfi 108. Einnig bárust myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum sem staðfestu þetta. Lögreglan fór á staðinn með talsverðan viðbúnað en þá var byssumaðurinn farinn af vettvangi.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri, segir manninn hafa verið ungan að aldri og með fleiri ungmennum. Hans var leitað í nótt en fannst ekki.

„Það er verið að skoða öryggisupptökur og reyna að bera kennsl á þeim sem þar eru. Hafa upp á þeim og yfirheyra,“ segir Guðbrandur. 

Það sé ekki hægt að staðfesta út frá upptökunum hvort um hafi verið að ræða leikfangabyssu eða skotvopn, en lögregla telur þó að um alvöru vopn hafi verið að ræða.

„Það var eins og um fíflagang væri að ræða. Hann var að miða á aðra í hópnum,“ segir Guðbrandur. 

En þið teljið ykkur þekkja einhverja í hópnum?

„Við teljum okkur bera kennsl á einhverja sem við þurfum að skoða og staðfesta.“

Hefur byssan fundist?

„Nei, ekkert fundist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×