Fótbolti

Mourinho heldur á­fram að hella sér yfir dómara: „Þetta var skelfi­legt. Hversu lengi var boltinn í leik?“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
José Mourinho hefur verið ófeimin við að gagnrýna dómara í Tyrklandi. 
José Mourinho hefur verið ófeimin við að gagnrýna dómara í Tyrklandi.  Ahmad Mora/Getty Images

José Mourinho heldur áfram að gagnrýna framkvæmd leikja í tyrknesku úrvalsdeildinni. Hann var afar ósáttur eftir 1-1 jafntefli sinna manna í Fenerbahce gegn Eyupspor í kvöld.

„Þetta var skelfilegt. Hversu lengi var boltinn í leik? Hversu löngum tíma eyddum við í stopp? Hversu lengi lágu leikmenn í jörðinni?,“ voru ræðuspurningar Mourinho eftir leik.

„Þessi leikur var ekki á háu gæðastigi. Ég ber ekki ábyrgð á því. Ég ber ábyrgð á spilamennsku liðsins, sem var líka slæm í dag. Við gerðum of mörg mistök. Þetta var slakur leikur og slæm frammistaða hjá okkur líka.“

Mourinho hefur farið mikinn frá því hann tók við störfum í Tyrklandi og gagnrýnt dómara deildarinnar harðlega.

Hann segir einnig erfitt að aðlaga sig að starfsháttum hjá tyrkneska félaginu. Hann er til dæmis óvanur og ósáttur því að leikmenn fari nú í frí. Hann hefði viljað halda þeim á æfingum yfir hátíðarnar.

„Við lofuðum þessu fyrir löngu. Ég er að sjá hluti hér sem ég hef ekki séð áður þrátt fyrir langan feril. Leikmennirnir hafa verið vanir þessu lengi, en að verður að breytast,“ sagði Mourinho.

Fenerbahce fer í frí með 36 stig úr 16 leikjum, í öðru sæti og fimm stigum frá efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×