Fótbolti

Breyta lands­liðs­búningnum sínum eftir flótta for­setans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sýrlenska landsliðið stillir sér hér upp fyrir framan þjóðfánann sinn fyrir landsleik á móti Íran. Hér má sjá þá í rauðu landsliðsbúningunum sínum en þeir spila ekki í þeim lengur.
Sýrlenska landsliðið stillir sér hér upp fyrir framan þjóðfánann sinn fyrir landsleik á móti Íran. Hér má sjá þá í rauðu landsliðsbúningunum sínum en þeir spila ekki í þeim lengur. Getty/Adam Nurkiewicz

Stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi var steypt af stóli af uppreisnarmönnum um helgina en borgarastríð hefur geisað þar í þrettán ár. Þessi breyting á valdhafa í landinu hefur bein áhrif á útlit sýrlenska fótboltalandsliðsins.

Sýrlenska fótboltasambandið gaf það fljótlega út eftir að Al-Assad flúði land að stjórn sambandsins hafi ákveðið að breyta um lit á landsliðsbúningnum.

Sýrlensku landsliðsmennirnir hafa síðustu ár klæðst rauðum landsliðstreyjum en núna skipta þeir yfir í grænt. Um leið breytti sambandið um lit á merki sambandsins þar sem rauði liturinn víkur fyrir þeim græna.

„Þetta er nýi landsliðsbúningur okkar liðs. Þetta er fyrsta sögulega breytingin í sögu sýrlenskra íþrótta og tákn fyrir það að við erum laus við frændahyglingu, laus við hlutdrægni og mismunun og laus við spillingu,“ stóð í færslunni.

Rauði liturinn spilaði stórt hlutverk hjá stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi. Sá rauði litur táknaði meðal annars uppreisn Araba gegn Tyrkjaveldi [Ottoman Empire] í fyrri heimsstyrjöldinni.

Græni liturinn er aftur á móti mjög mikilvægur í múhameðstrúnni. Fyrir marga múslíma þá stendur liturinn fyrir hreinleika og lífi í paradís eftir dauðann.

Sýrlenska knattspyrnulandsliðið var í 95. sæti á nýjasta styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Liðið komst hæst í 68. sæti í júlí árið 2018 en þremur árum fyrr var liðið í 152. sæti (Mars 2015).

Sýrland hefur aldrei komist á HM og liðið á ekki lengur möguleika á því að komst á næsta heimsmeistaramót sem fer fram næsta sumar. Liðið sat eftir í annarri umferð undankeppni Asíu en Japan og Norður-Kórea fóru upp úr þeirra riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×