Handbolti

Sonur þjálfarans er marka­hæstur í Olís deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Fritz Bjarnason er að blómstra undir stjórn föður síns Bjarna Fritzsonar.
Baldur Fritz Bjarnason er að blómstra undir stjórn föður síns Bjarna Fritzsonar. Vísir/Hulda Margrét/@ir_handbolti

Baldur Fritz Bjarnason, leikmaður ÍR, er markahæsti leikmaður Olís deildar karla í handbolta nú þegar deildin er komin í landsleikjafrí.

Baldur Fritz Bjarnason er fæddur í janúar 2007 og því ekki enn orðinn átján ára gamall. Sannarlega mikið efni þar á ferðinni.

Baldur hefur skorað 79 mörk í 9 leikjum ÍR-inga eða 8,8 mörk að meðaltali í leik. Hann hefur nýtt 56 prósent skota sinna samkvæmt tölfræði HBStatz og er einnig með 4,0 stoðsendingar að meðaltali.

Baldur er eins og margir vita sonur þjálfara ÍR-liðsins Bjarna Fritzsonar. 

Bjarni, faðir hans, var sjálfur markakóngur deildarinnar á sínum tíma. Bjarni varð markakóngur tímabilið 2011-12 þegar hann skoraði 163 mörk eða 7,7 mörk í leik fyrir lið Akureyrar.

Sonur hans Baldur hefur nú skorað sjö mörkum meira en næsti maður sem er Gróttumaðurinn Jón Ómar Gíslason.

Fjórir markahæstu leikmenn deildarinnar eru allir fæddir á þessari öld, það er eftir aldarmótin 1999-2000.

Jón Ómar Gíslason (fæddur 2000) er 24 ára og þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar er Framarinn Reynir Þór Stefánsson (fæddur 2005) sem er aðeins nítján ára.

Reynir hefur skorað 66 mörk eða 7,3 mörk í leik. Hann er þrettán mörkum á eftir markahæsta leikmanni deildarinnar.

HBStatz tók þetta saman eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×