Fótbolti

Ancelotti: Þeir áttu að fresta öllum fót­bolta á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti var áhyggjufullur á blaðamannafundinum vegna ástandsins á Spáni.
Carlo Ancelotti var áhyggjufullur á blaðamannafundinum vegna ástandsins á Spáni. Getty/Alberto Gardin

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid stýrði ekki liði sínu um helgina þar sem leik liðsins á móti Valencia var frestað vegna flóðanna miklu í Valenica.

Tveimur leikjum í spænsku deildinni var frestað en allir hinir leikirnir fóru fram.

Spænska deildin hefur unnið með Rauða krossinum í að safna pening fyrir hjálparstarfið og fyrir þá sem misstu mikið í flóðunum. Forráðamenn hennar hafa fengið gagnrýni á sig fyrir að fresta ekki öllum leikjunum.

„Þetta er búin að vera vika full af harmleik og við erum öll mjög sorgmædd,“ sagði Carlo Ancelotti á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleik Real Madrid á móti AC Milan. Fjöldi fólks lést í flóðunum.

„Okkar hugur er hjá fólkinu í Valencia og öllum bæjunum sem lentu í þessu. Vonandi tekst fólki að finna lausn á þessu ástandi sem fyrst. Það er erfitt að tala um fótbolta í svona kringumstæðum hvað þá að spila fótbolta. Við erum hluti af þessu landi og þetta hafði áhrif á okkur líka,“ sagði Ancelotti.

„Hausinn er ekki á réttum stað. Við reynum að undirbúa okkur fyrir leikinn af því að við erum fagmenn. Við verðum að gera það,“ sagði Ancelotti.

Fjöldi leikmanna og þjálfara á Spáni töldu réttast að fresta öllum leikjum á Spáni um síðustu helgi.

„Það er á hreinu að það vildi enginn spila. Við ráðum þessu bara ekki. Þeir sem eru ofar en við ráða þessu. Fótbolti er partý og þú getur haldið hátíð ef allt er í lagi,“ sagði Ancelotti og hélt áfram:

„Þegar fólk er ekki í lagi þá viltu ekkert partý. Þeir áttu að fresta öllum fótbolta á Spáni. Af því að hann er mikilvægastur af því sem skiptir minna máli,“ sagði Ancelotti.

Leikur Real Madrid og AC Milan er sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×