Handbolti

Sigurþrenna hjá Ís­lendingaliðunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi í leik kvöldsins.
Ómar Ingi í leik kvöldsins. @ehfcl

Íslendingaliðin Kolstad og Pick Szeged unnu eins nauma sigra og hægt er í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Magdeburg vann á sama tíma gríðarlega þægilegan sigur.

Kolstad frá Noregi vann Álaborg frá Danmörku í æsispennandi leik, lokatölur 25-24. Sigvaldi Björn Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, átti virkilega góðan leik. Hornamaðurinn skoraði fimm mörk og gaf eina stoðsendingu.

Pick Szeged og Kielce mættust í sannkölluðum Íslendingaslag þar sem heimaliðið hafði betur með minnsta mun, lokatölur 28-27. Janus Daði Smárason var magnaður í sigurliðinu, hann skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar.

Þá vann Magdeburg öruggan sigur á RK Zagreb, lokatölur 36-24. Íslendingarnir í Magdeburg spiluðu ekki mikið en komust þó á blað, Ómar Ingi Magnússon skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu. Þá skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson einnig eitt mark.

Öll liðin leika í B-riðli og þurftu svo sannarlega á sigrunum að halda. Pick Szeged er í 3. sæti með 8 stig, Kolstad í 6. sæti með 6 stig og Magdeburg sæti neðar með 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×