Íslenski boltinn

Gylfi Þór ekki í hóp Vals í gær en á landsliðsæfingu í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór á æfingu dagsins.
Gylfi Þór á æfingu dagsins. KSÍ

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki með Val í leiknum gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta á sunnudag en var hins vegar mættur á æfingu A-landsliðs Íslands sem undirbýr sig nú fyrir leik gegn Wales í Þjóðadeildinni síðar í vikunni.

Gylfi Þór var ekki í leikmannahóp Vals sem mætti á Kópavogsvöll í gær.  Leiknum lauk með 2-2 jafntefli sem þýddi staðan er óbreytt á toppi Bestu deildarinnar. Víkingur og Breiðablik eru jöfn á toppnum á meðan Valur er með stigi meira en Stjarnan í baráttunni um Evrópusæti. 

Fyrir leik var Túfa (Srdjan Tufegdzic), þjálfari Vals, spurður út í fjarveru Gylfa Þórs. Þjálfarinn sagði hann vera að glíma við bakmeiðsli og játti því svo þegar hann var spurður hvort landsliðsvikan hjá Gylfa Þór væri í hættu.

„Okkur vantar fullt af mönnum í dag, en það er mikil samstaða, mikið stolt og mikil vinnusemi í liðinu. Það er jákvætt að fá lendsleikjapásu núna. Þetta eru tvær vikur þar sem ég vona að við munum endurheimta einhverja leikmenn,“ sagði Túfa eftir leik.

Fyrr í dag, mánudag, birti Knattspyrnusamband Íslands myndir af landsliðsæfingu frá því í dag og þar var Gylfi Þór mættur. Hversu mikið hann var með á æfingunni er ekki ljóst þegar þetta er skrifað.

https://www.visir.is/g/20242630541d/uppgjorid-breidablik-valur-2-2-obreytt-stada-a-toppnum-eftir-jafntefli-a-kopavogsvelli

Hinn 35 ára gamli Gylfi Þór hefur spilað 82 A-landsleiki og skorað í þeim 27 mörk, er hann markahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins. 

Miðjumaðurinn var í byrjunarliði Íslands í 2-0 sigrinum á Svartfjallalandi í síðasta mánuði sem og tapinu gegn Tyrklandi. Hvað Val varðar hefur Gylfi Þór spilað 20 leiki í sumar og skorað 10 mörk.

Íslands mætir Wales á föstudaginn kemur, 18. október. Leikurinn hefst klukkan 18.45 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst 18.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×