Fótbolti

Cecilía fer á kostum í Mílanó

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð sig frábærlega gegn meisturum Roma um helgina.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð sig frábærlega gegn meisturum Roma um helgina. Getty/Pier Marco Tacca

Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir virðist njóta sín í botn með liði Inter í ítölsku A-deildinni í fótbolta og hún stóð sig frábærlega í leik við meistara Roma um helgina.

Eins og sjá má af klippum frá leik Inter og Roma hér að neðan þá hafði Cecilía í nógu að snúast í leiknum en meistararnir áttu hins vegar í tómu basli með að koma boltanum framhjá henni. Það tókst þeim í rauninni ekki, því eina mark Roma var sjálfsmark Mariju Milinkovic í 1-1 jafntefli.

Cecilía er til að mynda í liði 5. umferðarinnar hjá Sofascore, með 8,2 í einkunn eða eina hæstu einkunn umferðarinnar. Hún var einnig valin í lið umferðarinnar eftir frammistöðu sína í fyrsta leik hjá Inter, eftir að hafa komið að láni frá Bayern München í sumar.

Cecilía meiddist alvarlega í hné fyrir ári síðan en hefur nú náð sér af þeim meiðslum og rúmlega það, og hefur enn ekki tapað með Inter í deildinni.

Þessi 21 árs gamla knattspyrnukona hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í ítölsku deildinni það sem af er leiktíð, fæst allra, og aldrei fleiri en eitt mark í leik.

Cecilía er með flest varin skot að meðaltali í deildinni, samkvæmt tölfræði Sofascore, með 4,3 varin skot að meðaltali í leik, en þær Doris Bacic hjá Napoli eru einar um að hafa varið að minnsta kosti fjögur skot að meðaltali í leik.

Inter er núna í 3. sæti með ellefu stig, fjórum stigum á eftir toppliði Juventus sem unnið hefur alla leiki sína til þessa. Meistarar Roma eru í 4. sæti með níu stig en Fiorentina, með Alexöndru Jóhannsdóttur innanborðs, er í 2. sæti með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×