Fótbolti

Sæ­var Atli ekkert rætt við Lyngby

Sindri Sverrisson skrifar
Sævar Atli Magnússon á ferðinni í landsleik gegn Slóvakíu í fyrra. Hann hefur leikið fimm A-landsleiki.
Sævar Atli Magnússon á ferðinni í landsleik gegn Slóvakíu í fyrra. Hann hefur leikið fimm A-landsleiki. vísir/Diego

Fótboltamaðurinn Sævar Atli Magnússon er á sinni fjórðu leiktíð með Lyngby í Danmörku og kominn með yfir hundrað leiki fyrir félagið. Eftir að hafa skorað sitt sextánda mark fyrir liðið í gær sagði hann framtíðina hins vegar í óvissu.

Samningur Sævars Atla við Lyngby rennur nefnilega út eftir yfirstandandi leiktíð, næsta sumar, og framherjinn segir engar viðræður hafa átt sér stað um nýjan samning.

„Við höfum enn ekki rætt saman. Svo ég veit ekki hvað mun gerast,“ sagði Sævar Atli við Bold, eftir að hafa gert eina mark Lyngby í gær í 1-1 jafntefli við Randers.

„Ég hugsa ekki svo mikið um það hvað mun gerast. Kannski kemur Lyngby og ræðir við mig um þetta í desember. Ég er á mínu fjórða tímabili með Lyngby og mér finnst ég hafa spilað vel hérna, en maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði Sævar Atli.

Breiðhyltingurinn virðist því algjörlega opinn fyrir því að halda áfram hjá Lyngby, eftir að hafa fyrst farið til félagsins þegar Freyr Alexandersson var þar þjálfari.

„Ég er mjög ánægður hjá Lyngby og með að hafa náð yfir 100 leikjum fyrir félagið. Svo sjáum við til hvað gerist,“ sagði Sævar Atli.

Hann á að baki fimm A-landsleiki, alla á árinu 2023, en er ekki í landsliðshópnum sem kemur saman í dag til undirbúnings fyrir leikina við Wales og Tyrkland í Þjóðadeildinni, á föstudag og mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×