Upp­gjörið: FH - Valur 23-30 | Valur á flugi og FH ekki eins án Arons

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
444783660_26059536393631666_8405466883806797647_n
vísir/diego

FH tapaði í kvöld sínum öðrum leik á tímabilinu þegar liðið fékk Valsmenn í heimsókn. Lokatölur 23-30 í leik þar sem Valsmenn stýrðu ferðinni frá upphafi.

Fyrir leik voru stórtíðindi, en það var enginn Aron Pálmarsson á skýrslu hjá FH. Aron varð fyrir meiðslum á æfingu liðsins í gær og því óleikfær.

Valsmenn hófu leikinn betur og komu sér í þriggja marka forystu eftir rúmar tíu mínútur, staðan 3-6. FH-ingar voru þó fljótir að jafna leikinn, Valsmenn voru þó með yfirhöndina.

Stór hluti fyrri hálfleiksins var á heldur minna tempói heldur en þessi lið hafa boðið upp á í sínum leikjum. Hraðinn jókst þó í leiknum þegar leið á fyrri hálfleikinn.

Gestirnir komu sér í tveggja marka forystu þegar skammt var til hálfleiks, en Ásbjörn Friðriksson náði þó að minnka muninn niður í eitt mark með lokaskoti fyrri hálfleiks. Staðan 12-13 í hálfleik og mátti sjá á sóknarleik heimamanna að Aron Pálmarsson væri fjarverandi.

Líkt og í upphafi leiks þá hófu gestirnir síðari hálfleikinn töluvert betur og voru komnir í fjögurra marka forystu eftir rúmar tíu mínútur í síðari hálfleik. FH-ingar tóku þá leikhlé til þess að koma böndum á Valsliðið.

Gekk það ekki eftir þar sem Valsmenn héldu statt og stöðugt í sína forystu.

Þegar um þrjár mínútur voru eftir minnkuðu heimamenn muninn í þrjú mörk og staðan 23-26. Allt gekk þó á afturfótunum það sem eftir lifði leiks hjá FH og Valsmenn skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins.

Atvik leiksins

Ekkert eitt atvik sem skar úr um niðurstöðuna í kvöld. Fremur var það öll þau augnablik þar sem FH-ingar létu Björgvin Pál Gústavsson verja frá sér úr algjörum dauðafærum.

Atvikið gæti þó verið það að Aron Pálmarsson var ekki með í kvöld og er það skarð fyrir skildi fyrir FH í stórleik sem þessum.

Stjörnur og skúrkar

Sóknarleikur FH var fremur stirður og söknuðu þeir greinilega fyrirliða síns. Liðið kom sér þó oft í dauðafæri en Björgvin Páll var þá vel á verði.

Jakob Martin Ásgeirsson skoraði til að mynda ekki eitt einasta mark úr þeim fjórum færum sem hann fékk í horninu hjá FH.

Líkt og fyrr segir var Björgvin Páll flottur í kvöld, en hann varði einnig tvö vítaskot.

Viktor Sigurðsson átti sennilega sinn besta leik fyrir Val á tímabilinu en hann endaði með sjö mörk og stýrði sóknarleik gestanna með ágætum.

Dómarar

Kári Garðarsson og Þorleifur Árni Björnsson dæmdu þennan leik, en Magnús Kári Jónsson átti upphaflega að dæma leikinn með Kára en breyting var gerð á leikskýrslu leiksins tæpum klukkutíma fyrir leik.

Kári og Þorleifur Árni dæmdu leikinn vel og ekkert athugavert við þeirra frammistöðu.

Stemning og umgjörð

Flott umgjörð hjá FH. Októberfest-tjald fyrir utan Kaplakrika með veigum í föstu og fljótandi formi. Það var vel mætt á þennan stórleik.

Viðtöl 

Óskar Bjarni: Við erum ekki alveg komnir í fluggírinn

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. Vísir/Diego

„Ég er mjög sáttur eftir þennan leik,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir sigur sinna manna.

„Við byrjuðum mótið í sjálfum sér ekki vel, hefðum átt að vera búnir að hirða fleiri stig. Erum búnir að vera slípa menn inn og svona, þannig að ég er mjög ánægður að vinna frábært FH lið. Auðvitað munar um Aron Pálmarsson, en þeir spiluðu líka frábærlega án hans í fyrra. Hann er klárlega lang besti leikmaður deildarinnar og sögunar jafnvel með Óla Stef, þannig að það munar um hann að sjálfsögðu.“

Óskar Bjarni telur flesta þætti leiksins hafa skorið úr um hvar sigurinn myndi enda.

„Við spiluðum frábæra vörn og Björgvin var frábær og svona nokkuð agaður og góður sóknarleikur. Ekki mikið að tæknifeilum og dóti, þannig að ég er mjög sáttur með heildarbraginn þó að mér finnist enn þá vanta ýmislegt. Það þarf að kíkja á það líka þó að við vinnum.“

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð hægur miðað við það sem Valsmenn eru vanir. Óskar Bjarni segir góðar og gildar ástæður fyrir því.

„Við erum ekki alveg komnir í fluggírinn þannig að við erum aðeins að tóna okkur niður inn á milli. Við vorum skemmtilegasta lið landsins undir stjórn Snorra og með Björgvin í markinu að keyra þetta upp. Við erum bara ekki alveg með breiddina og dótið í það og við erum ekki komnir í taktinn, þannig að við erum svona viljandi að hægja á okkur. Við skorum samt held ég sjö mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik.“

„Við eigum bara eftir að verða betri og betri. Þetta snýst bara um að koma öllum í takt og koma öllum inn. Við erum aðeins enn þá á eftir þar, en þetta kemur.“

Óskar Bjarni lýtur á leik kvöldsins sem frábæran undirbúning fyrir komandi átök í Evrópudeildinni, en Valsmenn mæta HC Vardar í Norður-Makedóníu á þriðjudaginn í fyrstu umferð keppninnar.

„Þetta er frábær undirbúningur fyrir bæði lið þessi leikur. Við erum orðnir ágætlega vanir Evrópukeppni og FH líka, þannig að við erum ekkert byrjaðir að setja kollinn í eitthvað annað. Það bíða beggja liða rosalega krefjandi verkefni, þannig að það er bara gaman og spennandi og gefur félögunum og leikmönnunum rosa mikið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira