Upp­gjörið: Álfta­nes - Kefla­­vík 101-108 | Hasar og læti í fram­lengdum leik í For­seta­höllinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson í baráttunni við Igor Maric og Wendell Green leikmenn Keflavíkur.
Haukur Helgi Pálsson í baráttunni við Igor Maric og Wendell Green leikmenn Keflavíkur. Vísir/Anton Brink

Keflavík vann góðan sigur á Álftanesi í framlengdum leik þegar liðin mættust í 1. umferð Bónus-deildarinnar á Álftanesi í kvöld. Dramatíkin var allsráðandi undir lokin og tilfinningarnar miklar á vellinum sem og í stúkunni.

Leikurinn var frábær skemmtun og skiptust liðin á forystunni. Keflavík hóf leikinn mun betur og leiddi mest með tólf stigum í fyrri hálfleik. Vörn heimamanna virtist ekki alveg með á nótunum og þá hitti Bandaríkjamaðurinn Andrew Jones illa hjá Álftnesingum í upphafi. Forysta gestanna varð mest tólf stig í fyrri hálfleik en eftir góðan endasprett heimamanna var staðan 55-48 Keflvíkingum í vil í hálfleik.

Viktor Steffensen og Hilmar Pétursson í baráttunni.Vísir/Anton Brink

Endasprettur fyrri hálfleiks var aðeins forsmekkurinn af því sem koma skyldi í þriðja leikhluta hjá liði Álftaness. Þeir náðu að tengja betur saman í vörninni og Jones fór að hitta. Heimamenn náðu fljótt forystunni og varð munurinn mestur níu stig.

Álftnesingar héldu frumkvæðinu í fjórða leikhluta en í stöðunni 92-88 fyrir Álftnesingum steig Wendell Green heldur betur upp og setti niður tvö þriggja stiga skot fyrir Keflavík eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þessar körfur virtust ætla að tryggja gestunum sigurinn en svo var aldeilis ekki.

Wendell Green sækir á körfuna.Vísir/Anton Brink

David Okeke minnkaði muninn í 96-93 úr víti þegar tuttugu sekúndur voru eftir en klikkaði síðara vítinu. Keflvíkingar náðu frákastinu en misstu boltann og Grikkinn Dimitrios Klonaras jafnaði metin með þriggja stiga skoti úr horninu þegar 7,7 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar náðu ekki að nýta síðustu sóknina og því varð að framlengja.

Dimitrios Klonaras átti fínan leik fyrir Álftnesinga.Vísir/Anton Brink

Þar voru gestirnir sterkari. Halldór Garðar Hermannsson steig upp með tveimur risastórum þriggja stiga körfum og í stöðunni 102-99 fyrir gestina vildu Álftnesingar fá dæmda villu á Keflvíkingar þegar Andrew Jones keyrðu á körfuna. Ekkert var dæmt, Keflvíkingar fóru upp og skoruðu og bekkur heimamanna fékk tæknivillu þar að auki. Algjört lykilaugnablik og pendúllinn sveiflaðist til gestanna.

Heimamenn náðu ekki að svara og það voru því Keflvíkingar sem fögnuðu 108-101 sigri að lokum eftir háspennuleik.

Atvik leiksins

Leikurinn var uppfullur af stórum augnablikum. Körfurnar frá Green undir lok venjulegs leiktíma, karfa Klonaras sem tryggði framlengingu og svo körfur Halldórs Garðars í framlengingunni.

Andrew Jones og Hilmar Pétursson berjast um boltann.Vísir/Anton Brink

En stærsta atvikið var engu að síður þegar Andrew Jones keyrðu á körfuna í stöðunni 102-99. Úr blaðamannastúkunni séð virtist um augljósa villu að ræða. Í stað þess að Álftnesingar fengju tækifæri til að halda sér inni í leiknum fóru Keflvíkingar upp og skoruðu og gerðu nánast út um leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Wendell Green og Halldór Garðar voru menn stóru skotanna hjá Keflavík. Það var „Remy Martin-tilfinning“ yfir körfum Green sem endaði stigahæstur á vellinum með 27 stig. Halldór Garðar var sömuleiðis virkilega góður og Hilmar Pétursson átti fínan leik eftir félagaskiptin frá Þýskalandi í sumar.

Andrew Jones verður án efa öflugur í liði Álftaness í vetur.Vísir/Anton Brink

Hjá Álftnesingum byrjaði Andrew Jones á því að klikka á fyrstu fimm skotum sínum en steig heldur betur upp eftir það. Hann endaði stigahæstur hjá Álftanesi með 25 stig og þá var Klonaras sömuleiðis góður.

Tómas Þórður Hilmarsson átti hins vegar ekki sitt draumakvöld í fyrsta deildarleiknum með Álftnesingum. Hann nældi sér í þrjár villur á tveimur mínútum í fyrsta leikhluta og fékk ekki tækifæri eftir það.

Dómararnir

Þeir voru í sviðsljósinu undir lokin sem sjaldan er jákvætt. Þeir dæmdu leikinn í sjálfu sér ekki illa en það verður áhugavert að skoða greiningu á atvikum í fjórða leikhluta og framlengingunni þegar Álftnesingar keyrðu á körfuna.

Dómarar leiksins þeir Bjarki Þór Davíðsson, Bjarni Rúnar Lárusson og Einar Valur Gunnarsson.Vísir/Anton Brink

Heimamönnum fannst á sér brotið og úr blaðamannastúkunni séð virtust þeir hafa töluvert til síns máls.

Stemmning og umgjörð

Umgjörðin hjá Álftnesingum var til fyrirmyndar. Pylsusala frá Bæjarins Bestu fyrir svanga stuðningsmenn og mætingin í nýju stúkuna fín. Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn í kvöld og eflaust ekki í síðasta skipti sem sú verður raunin í Forsetahöllinni í vetur.

„Tökum þetta mjög glaðir“

Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var ánægður með sigurinn á Álftanesi í kvöld og tók undir með að þetta væri vonandi það sem koma skyldi í Bónus-deildinni í vetur, háspennuleikir.

„Þetta er leikur sem býður upp á svona atvik. Við fengum fullt af þeim í dag og það var geggjað, “ sagði Pétur í viðtali við Vísi eftir leik í kvöld.

Pétur er á sínu öðru tímabili sem þjálfari Keflavíkur.Vísir/Anton Brink

Wendell Green og Halldór Garðar Hermannsson settu gríðarlega stór skot á lykilaugnablikum undir lok leiksins og í framlengingunni. Pétur sagði gott að geta leitað til svona leikmanna.

„Engin spurning. Þetta er hluti af okkar leik og þegar skotin fóru að detta ofan í hjá okkur þá náðum við að byggja upp forskot og stoppa smá varnarlega. Það var sterkt og í þessari deild fer maður ekkert á útivöll og vinnur einhverja leiki auðveldlega. Þetta er hörkuvel samsett lið og vel þjálfað þannig að við tökum þetta mjög glaðir.“

Pétur Ingvarsson veltir hlutunum fyrir sér á hliðarlínunni.Vísir/Anton Brink

Keflvíkingar lentu í vandræðum í þriðja leikhluta eftir að hafa haft frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn. 

„Við hittum ekki vel og þeir hittu vel. Þeir skoruðu þrjátíu og eitt stig og þeir átján. Það er svona meira eins og við erum að reyna að ná, þrjátíu stigum en ekki átján. Þetta er hörkulið og erfitt fyrir okkur að spila á fullu í fjörtíu mínútur ef það vantar einn okkar besta varnarmann í liðinu.“

Pétur á þar við Sigurð Pétursson sem varð að fara af velli í þriðja leikhluta og var blóðugur í andlitinu þegar hann gekk með sjúkraþjálfara Keflvíkinga til búningsherbergis.

Sigurður Pétursson sækir á Hauk Helga Pálsson en Sigurður þurfti að fara af velli vegna meiðsla.Vísir/Anton Brink

„Ég veit ekki mikið um það en hann skekkti framtönn í Iceland Glacial-mótinu og hann var að fara í rótarfyllingu á morgun og láta búa til góm. Ég veit ekki alveg hvernig það verður,“ en Pétur verður væntanlega ekki lenig að afla sér upplýsinga enda Sigurður sonur Péturs.

„Pétur lét mig skjóta þúsund þristum í sumar“

Halldór Garðar Hermannsson átti flottan leik fyrir Keflavík í sigrinu gegn Álftnesingum í kvöld.

„Þetta var mjög jafn leikur og við leiddum meirihluta fyrri hálfleiks og svo komu þeir gríðarlega sterkir út í þriðja leikhluta. Settu skot og svo var þetta stál í stál í fjórða. Að sjálfsögðu fór þetta í framlengingu, það er búið að vera sagan á milli þessara liða á síðasta ári. Mjög sætt að klára þetta í framlengingu.“

Halldór Garðar Hermannsson sækir á David Okeke.Vísir/Anton Brink

Atburðarásin undir lok venjulegs leiktíma var ævintýraleg þar sem Keflvíkingar hentu frá sér afar góðri stöðu.

„Þeir setja fyrra vítið, klikka á seinna. Við náum frákastinu og köstum á þá. Svo setja þeir þrist og þetta var bara fáránlegt.“

Halldór Garðar setti tvö frábær þriggja stiga skot niður í framlengingunni og kom Keflvíkingum í bílstjórasætið. Hann sagðist kunna vel við að taka stóru skotin í leikjum.

Halldór Garðar Hermannsson setti niður stór skot í framlengingunni.Vísir/Anton Brink

„Þetta datt allavega í kvöld og mér leið vel. Það var fullt hús og mikið af Keflvíkingum mættir, stór hrós á þá. Þetta var gaman og ég vil taka þessi skot.“

Það var ekki laust við að hugurinn leitaði aðeins til Remy Martin eftir þrista frá Wendell Green og Halldóri á ögurstundu í kvöld. Martin heillaði körfuboltaunnendur í deildinni í fyrra en meiddist í úrslitakeppninni sem gerði út um vonir Keflvíkinga í það skiptið. Halldór Garðar tók undir að þetta hefðu verið skot í hans and.

„Er það ekki, eigum við ekki að segja það?“ sagði Halldór Garðar hlæjandi.

Wendell Green var stigahæstur á vellinum í kvöld með 27 stig og skoraði stórar körfur undir lokin.Vísir/Anton Brink

„Þeir voru að tala um þetta í klefanum strákarnir. Þetta voru svona stemmningskörfur eins og hann kom með í fyrra. Pétur lét mig skjóta þúsund þristum í sumar og það var gaman að ná að setja þá niður,“ sagði Halldór Garðar við og sagðist vera ánægður með framlag Bandaríkjamannsins Wendell Green hjá Keflavíkurliðinu.

„Hann stjórnar vel tempóinu og þegar hann þarf að taka yfir þá tekur hann yfir og setur stórar körfur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira