Handbolti

Elliði marka­hæstur, öruggt hjá Andra og Andreu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elliði Snær Viðarsson varð markahæstur í sigri Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson varð markahæstur í sigri Gummersbach. gummersbach

Fjöldi leikja fór fram í þýsku bikarkeppnunum í handbolta í dag. Spilað var í þriðju umferð keppninnar karlamegin og sextán liða úrslitum kvennamegin. 

Fjögur Íslendingalið áfram

Fjögur af sex Íslendingaliðunum í bikarkeppni karla komust áfram í þriðju umferð (32-liða úrslit).

Lubbecke tók á móti Leipzig, þeim leik lauk 23-32. Rúnar Sigtryggsson stýrði gestunum til sigurs, sonur hans Andri Már skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar.

Balingen bar sigur úr býtum gegn Wetzlar, 34-32, Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark og gaf þrjár stoðsendingar fyrir sigurliðið.

Gummersbach sótti sigur gegn Erlangen, 27-28. Elliði Snær Viðarsson varð markahæstur í Gummersbach með sex mörk, auk þess að gefa eina stoðsendingu.

BHC sótti útisigur gegn Elbflorenz, 32-36. Tjörvi Týr Gíslason er leikmaður BHC og gaf eina stoðsendingu.

Tvö taplið

Fuchse Berlin vann eins marks sigur, 37-36, gegn Göppingen. Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir tapliðið.

Leikur Rostock og Nordhorn-Lingen fór í framlengingu, og lauk að endingu 42-40. Elmar Erlingsson skoraði þrjú mörk úr þremur skotum fyrir gestina.

Andrea og Díana einnig áfram

Í bikarkeppni kvenna vann Blomberg-Lippe gegn Grafrath, 30-23, í sextán liða úrslitum. Andrea Jacobsen gaf eina stoðsendingu og varð næst markahæst í liði Blomberg-Lippe með fjögur mörk. Díana Dögg Magnúsdóttir spilaði sömuleiðis en komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×