Fótbolti

„Vil ekki snúa þessu upp í sápu­óperu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Luis Enrique fór mikinn á fréttamannafundi gærdagsins.
Luis Enrique fór mikinn á fréttamannafundi gærdagsins. Getty/Valerio Pennicino

Ég myndi gera þetta í hundrað af hverjum hundrað skiptum, segir stjóri Paris Saint-Germain sem setti stórstjönu út í kuldann fyrir stórleik kvöldsins í Meistaradeild Evrópu.

Ousmane Dembélé, leikmaður Paris Saint-Germain, varð eftir í Parísarborg er leikmenn PSG ferðuðust til Lundúna þar sem liðið mætir Arsenal í kvöld. Um er að kenna ósætti milli hans og Luis Enrique, þjálfara franska liðsins.

„Í gær þurfti ég að taka erfiða ákvörðun, en ég hef trú á því að þetta sé það besta fyrir liðið. Án nokkurs vafa. Ég myndi taka þessa sömu ákvörðun hundrað sinnum,“ segir Enrique og bætir við:

„Það þýðir ekki að þetta sé staða sem sé óafturkræf eða óyfirstíganleg, en það sem ég tel best fyrir liðið er þetta.“

Franskir miðlar hafa greint frá hávaðarifrildi milli Dembele og þjálfarans Luis Enrique. Enrique segir Dembele hafa brotið reglur en neitar sögum um rifrildi þeirra á milli.

„Ég er hreinskilinn en ég vil ekki snúa þessu upp í sápuóperu. Það var ekkert rifrildi milli mín og leikmannsins. Það er ósatt og það er lygi. Það er ekkert vandamál milli leikmannsins og mín. Það er vandamál varðandi skyldur leikmannsins gagnvart liðinu, en ekkert meira. Það er auðleyst,“ segir Enrique.

Leikur Arsenal og PSG hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport. Meistaradeildarmessan verður í beinni á Stöð 2 Sport 2 þar sem Gummi Ben og sérfræðingar fylgja öllum leikjum kvöldsins eftir í beinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×