Innlent

Sjö Rúmenar gefa ekkert uppi um tug­milljóna króna þýfi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brotist var inn í verslanir Elko í Lindum í Kópavogi og í Skeifunni.
Brotist var inn í verslanir Elko í Lindum í Kópavogi og í Skeifunni. Vísir/Egill

Þýfi að verðmæti tugmilljóna króna úr tveimur verslunum Elko á höfuðborgarsvæðinu er enn ófundið. Sjö voru handteknir í tengslum við málið en um er að ræða Rúmena sem hafa ekki búsetu hér á landi.

Þjófarnir létu til skarar skríða seint á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags. Farið var inn í verslanir Elko, í Kópavogi annars vegar og Skeifunni hins vegar. Lögreglan í Kópavogi taldi sig fljótlega vita hvaða hóp væri um að ræða og sá svo á upptökum úr Skeifunni að um sama fólk var að ræða.

Alls voru sjö handteknir en þrír þeirra voru búnir að innrita sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Meðal handteknu eru bæði karlar og konur en fólkið hafði þýfið ekki á sér við handtöku. Það er raunar ófundið.

Fjórir sæta gæsluvarðhaldi til morguns vegna þjófnaðarins. Fram kom á Vísi í gær að andvirði þýfisins næmi tugum milljóna króna. Bæði væri um að ræða fjölda síma, önnur dýr tæki og reiðufé. Öryggiskerfi í annarri verslun Elko virkaði ekki eins og skildi sökum þess að framkvæmdir stóðu yfir á staðnum.

Heimir Ríkharðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi, segir lögreglu fikra sig áfram við rannsókn málsins. Þýfið sé ófundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×