Fótbolti

Ten Hag neitaði að kenna Erik­sen um jöfnunar­markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag var ekki sáttur að leik loknum. Lið hans hefur aðeins unnið þrjá af fyrstu sjö leikjum sínum.
Ten Hag var ekki sáttur að leik loknum. Lið hans hefur aðeins unnið þrjá af fyrstu sjö leikjum sínum. EPA-EFE/PETER POWELL

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, var eðli­lega ó­sáttur með sína menn eftir 1-1 jafn­tefli á heima­velli gegn Twente í Evrópu­deildinni. Hann segir sína menn hafa gefið jöfnunar­markið.

Man United leiddi í hálfleik eftir þrumuskot Christian Eriksen en danski miðjumaðurinn tapaði boltanum klaufalega í síðari hálfleik með þeim afleiðingum að gestirnir jöfnuðu metin.

„Við héldum þeim á lífi, þegar maður er 1-0 yfir og að stýra leiknum verður maður að sýna stöðugleika og halda áfram. Í síðari hálfleik lækkaði getustigið og við gáfum markið sem þeir skora.“

„Við kláruðum ekki leikinn, við þurfum að sækja annað mark en gerum það ekki og höldum þeim á lífið. Er svo refsað eftir mistök í liði okkar.“

„Að leikmaður Twente geti rekið boltann svona í gegnum miðjan völlinn án þessa að vera stöðvaður, þetta eru liðsmistök. Við getum ekki gefið liðum svona mörk,“ bætti þjálfarinn við og neitaði að kenna Eriksen um.

„Við höfum séð það margoft að þegar maður er 1-0 yfir verður maður að halda áfram og ná inn öðru marki. Þetta er fyrsti leikur tímabilsins í Evrópudeildinni og það er mjög mikilvægt að ná inn sigri,“ sagði Ten Hag að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×