Fótbolti

Davíð Snær skoraði gegn toppliðinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Davíð Snær Jóhannsson skoraði í kvöld.
Davíð Snær Jóhannsson skoraði í kvöld. Aalesund

Davíð Snær Jóhannsson var á skotskónum fyrir lið Álasund í norsku B-deildinni er liðið tapaði 4-1 fyrir toppliði Valerenga í kvöld.

Valerenga hefur verið með algjöra yfirburði í B-deildinni norsku í ár og stefnir hraðbyri upp í efstu deild. Álasund hins vegar í fallbaráttu og ljóst að verkefni dagsins yrði ekki einfalt fyrir Davíð og félaga.

Það byrjaði heldur ekki vel þar sem Valerenga var komið 2-0 yfir eftir aðeins 17 mínútna leik og þannig stóð í hléi. Davíð Snær minnkaði muninn fyrir Álasund á 62. mínútu en það dugði skammt. Valerenga skoraði tvö mörk til viðbótar og vann 4-1 sigur.

Valerenga er með tólf stiga forystu á toppi deildarinnar en Álasund er í 13. sæti með 25 stig, þremur frá fallsæti. Start er í sætinu fyrir neðan Álasund, umspilssæti um fall, stigi á eftir.

Í Svíþjóð var Adam Ingi Benediktsson í marki Östersund og hélt hreinu í markalausu jafntefli við Gefle á útivelli.

Líkt og Álasund í Noregi er Östersund í fallbaráttu í sænsku B-deildinni. Eftir jafntefli dagsins er liðið með 28 stig í ellefta sæti í 16 liða deild. Það eru þó aðeins sex stig niður á botninn í jafnri deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×