Innlent

Ung­menni í við­kvæmri stöðu hag­nýtt í af­brot hér á landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Runólfur Þórhallson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir vísbendingar um að ungmenni séu hagnýtt til afbrota hér á landi.
Runólfur Þórhallson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir vísbendingar um að ungmenni séu hagnýtt til afbrota hér á landi. Vísir/Einar

Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir lítinn hóp ungmenna í viðkvæmri stöðu hagnýttan í skipulagða brotastarfsemi hér á landi. Fylgjast þurfi sérstaklega með þessum hópi og nálgast ungmennin með fjölbreyttum leiðum.

Guðrún Hafsteindóttir dómsmálaráðherra fundaði með dómsmálaráðherrum hinna Norðurlandanna um skipulagða glæpastarfsemi á föstudag. 

Guðrún sagði í viðtali við dönsku fréttastofuna TV2 að sænsk glæpagengi hafi sent fólk til Íslands til að fremja afbrot og vísaði til þess þegar kveikt var í bíl lögreglumanns fyrir utan heimili hans fyrir um ári síðan. Gerendur í málinu hafi unnið eftir pöntun frá sænsku glæpagengi.

„Við búum við mjög fjölþjóðlegt afbrotaumhverfi á Íslandi, sem hefur verið að þróast þannig undanfarin tíu, fimmtán ár,“ segir Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Ekki jafn slæmt og í Svíþjóð og Danmörku

Á fundinum voru jafnframt fulltrúar stóru samfélagsmiðlanna, þar á meðal Snapchat, TikTok, Meta og Google. Til  umræðu var einnig hvernig skipulögð glæpastarfsemi beitir samskiptaforritum til að fá börn og ungmenni til liðs við sig.

„Við sjáum að ungt fólk í viðkvæmri stöðu, það eru vísbendingar um það að það sé verið að hagnýta það í afbrot. Á engan hátt sambærilegt við það sem við sjáum fréttir af frá Svíþjóð og Danmörku en við erum með vísbendingar um ákveðna þróun hér á landi í þá átt.“

Hann segir stöðu ungmenna almennt góða hérlendis og um sé að ræða afmarkaðan hóp í viðkvæmri stöðu en þróunin innan hans hafi verið á verri veg. Ná þurfi til þeirra með fjölbreyttum leiðum.

„Það eru þau sem eru að sinna barnavernd, það er heilbrigðiskerfið, það er menntakerfið - skólarnir. Við erum með mörg kerfi sem þurfa að tala saman. Það hefur verið mikil bragarbót í því að undanförnu að þessi kerfi eru að tala betur saman til að finna þessi ungmenni sem eru í þessari viðkvæmu stöðu. En það er alltaf hægt að gera betur,“ segir Runólfur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×