Fótbolti

„Hún var frá­bær eigin­kona, mögnuð móðir sem og amma“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sir Alex og Cathy Ferguson þegar hún var enn á lífi.
Sir Alex og Cathy Ferguson þegar hún var enn á lífi. John Peters/Getty Images

Sir Alex Ferguson, hinn goðsagnakenndi þjálfari Manchester United, settist niður á dögunum og ræddi eiginkonu sína heitina, Cathy. Einnig ræddi hann heilabilanir og hvað hann hefur gert til að halda sér sem skörpustum í ellinni.

Hinn 82 ára gamli Ferguson stýrði Man United frá árinu 1986 til 2013. Byggði hann upp eitt sigursælasta félag allra tíma og náði hreint út sagt mögnuðum árangri. Þar áður hafði hann náð ótrúlegum árangri með Aberdeen í heimalandi sínu Skotlandi.

Undir hans stjórn braut Aberdeen upp einokun Glasgow Rangers og Celtic ásamt því að félagið vann Evróputitil, gegn Real Madríd hvorki meira né minna.

Sir Alex er hins vegar ekkill í dag eftir að eiginkona hans Cathy lést á síðasta ári. Hann ræddi missinn og margt fleira í viðtali við breska ríkisútvarpið á dögunum.

„50 ár er langur tími. Hún var frábær eiginkona, mögnuð móðir sem og amma,“ sagði Sir Alex og var síðan minntur á að hann hefði sagt Cathy vera helstu ástæðu velgengni sinnar.

„Hún var forsprakki hljómsveitarinnar, það er enginn vafi um það.“

Í viðtalinu ræddi Ferguson lagalista sem hann hefur sett saman sem kallast „Lagalisti lífsins.“ Er það verkefni til heiðurs Cathy sem og til að hjálpa fjölskyldum þar sem einhver glímir við heilabilun.

Síðan Sir Alex Ferguson lét af störfum hjá Man United hefur ekki mikið gengið upp hjá félaginu og situr það sem stendur í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×