Innlent

Sáu skefti sem reyndist vera af gasskammbyssu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöld eða nótt tilkynnt um einstakling sem hafði valdið eignaspjöllum á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Í dagbók lögreglu segir að þegar laganna verðir hafi komið á vettvang hafi hópur verið í kringum einstaklinginn, og þá hafi verið nokkur æsingur.

Einstaklingurinn hafi brugðist illa við afskiptum lögreglu og streist á móti handtöku. Við öryggisleit á honum hafi fundist höggvopn og nokkuð af fíkniefnum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Í dagbók lögreglu er einnig greint frá því að ökumaður bíls hafi verið stöðvaður við almennt umferðareftirlit í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglumennirnir sem höfðu afskipti af ökumanninum sáu skefti af skotvopni í bílnum og því var maðurinn handtekinn.

Fram kemur að skotvopnið hafi verið gasskammbyssa, og þá fundust meint fíkniefni, stór hnífur og skotfæri í gasskammbyssuna. Einnig hafi ökumaðurinn verið ölvaður við akstur og hann vistaður í þágu rannsóknar málsins.

Einn einstaklingur var fluttur á slysadeild til aðhlynningar eftir reiðhjólaslys. Talið er að sá slasaði hafi verið viðbeinsbrotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×