Innlent

Fjögur sóttu um em­bætti yfir­dýra­læknis

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þóra Jóhanna, Egill Þorri, Brigitte og Vigdís vilja öll vera yfirdýralæknir.
Þóra Jóhanna, Egill Þorri, Brigitte og Vigdís vilja öll vera yfirdýralæknir. Samsett

Fjórir sóttu um starf yfirdýralæknis. Það eru þau Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir, Egill Þorri Steingrímsson, dýralæknir, Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir og Þóra Jóhanna Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir. Öll starfa þau hjá Matvælastofnun. Egill Þorri á að hefja starf sem nýr sviðsstjóri í september.

Embættið var auglýst laust til umsóknar þann 4. júlí og rann út umsóknarfrestur þann 28. sama mánaðar.

Matvælaráðherra skipar í embættið til fimm ára að undangengnu mati hæfnisnefndar. Hæfnisnefnd skipa Kolbeinn Árnason skrifstofustjóri á skrifstofu matvæla í matvælaráðuneytinu. Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður dýralæknafélagsins Íslands og Auður Bjarnadóttir, ráðgjafi og eigandi ráðningarstofunnar Vinnvinn.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að hæfnisnefnd starfi í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hefur til hliðsjónar reglur um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.

Þorvaldur H. Þórðarson var settur yfirdýralæknir frá því í upphafi árs og þar til í maí á meðan Sigurborg Daðadóttir var í tímabundnu verkefni í matvælaráðuneytinu. Sigurborg var fyrst kvenna skipuð í embættið árið 2013 og sinnti því embættinu í um ellefu ár. Fyrst var skipað í embættið árið 1943.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×