Innlent

Titringurinn á Sund­hnúks­gíga­röðinni heldur á­fram að magnast

Kjartan Kjartansson skrifar
Ítrekað hefur gosið á Reykjanesi undanfarna mánuði og ár. Nú stefnir í enn eitt gosið.
Ítrekað hefur gosið á Reykjanesi undanfarna mánuði og ár. Nú stefnir í enn eitt gosið. Vísir/Arnar

Um þrjú hundruð smáskjálftar hafa mælst á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesi frá því á mánudag og heldur skjálftavirknin áfram að aukast. Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi er sögð svipuð og síðustu daga.

Varað hefur verið við vaxandi líkum á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi undanfarna daga og vikur, sérstaklega eftir að skjálftavirkni jókst töluvert í síðustu viku. Nú segir Veðurstofa Íslands að um þrjú hundruð skjálftar undir tveimur að stærð hafi mælst frá því á mánudag. Meirihluti þeirra er undir einum að stærð.

Aflögunargögn og líkansreikningar bendi til þess að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi sé með óbreyttu móti. Kvikuþrýstingur aukist áfram og þróunin sé svipuð og í aðdraganda fyrri kvikuhlaupa og eldgosa á svæðinu.

Áfram er gert ráð fyrir að komi til eldgoss verði það annað hvort með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks eða sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af því. Gosið hefur á báðum svæðum í eldvirkni síðustu mánaða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×