Innlent

Margt enn á huldu um sprenginguna á flug­vellinum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Verið er að rannsaka sprengjuíhlut sem fannst á vettvangi og myndbandsupptökur hafa enn ekki leitt neitt í ljós um sökudólginn eða hvað vakti fyrir honum.
Verið er að rannsaka sprengjuíhlut sem fannst á vettvangi og myndbandsupptökur hafa enn ekki leitt neitt í ljós um sökudólginn eða hvað vakti fyrir honum. Vísir/Vilhelm

Rannsókn á lítilli sprengju sem sprakk á Keflavíkurflugvelli fimmtudaginn síðastliðinn heldur áfram og málið er enn óupplýst. Ekki er vitað með hvaða tilgangi sprengjunni var komið fyrir né hver beri ábyrgð á henni.

Þetta segir Sölvi Rafn Rafnsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum í samtali við fréttastofu.

„Það er verið að leggja lokahönd á skýrslur og skoða myndbönd og fá niðurstöðu í hvað þetta var. Það er ekki búið að ljúka endanlega skýrslugerðinni,“ segir hann.

Enginn hefur verið handtekinn og enginn liggur undir grun enn sem komið er. Verið er að fara yfir myndefni af vettvangi en það hefur lítið leitt í ljós. Niðurstaða tæknideildar sem rannsakar íhlut úr sprengjunni sem fannst á vettvangi er enn beðið.

Greint var frá því í síðustu vikuð að talið væri að hluturinn sem sprakk væri einhvers konar víti. Það er að segja heimatilbúin sprengja búin til úr flugeldum. Starfsmaður flugvallarins slasaðist hlaut minniháttar áverka á fingrum þegar sprengjan sprakk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×