Fótbolti

Ís­lenskur mark­vörður orðaður við Frey og fé­laga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson gæti verið á leið til Belgíu.
Patrik Sigurður Gunnarsson gæti verið á leið til Belgíu. @vikingfotball

Belgískir fjölmiðlar halda áfram að orða íslenska knattspyrnumenn við belgíska efstu deildarfélagið KV Kortrijk. Það kemur ef til vill ekki á óvart þar sem Freyr Alexandersson sótti fjölda Íslendinga til Lyngby þegar hann var þar.

Freyr hélt Kortrijk í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð en hefur síðan misst fjölda manna. Hann hefur gefið út að félagið þurfi að sækja þónokkra leikmenn ætli það sér að vera samkeppnishæft á komandi leiktíð.

Nú er markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson orðaður við félagið en hann leikur í dag með Viking í Noregi. Samkvæmt belgískum fjölmiðlum hefur Kortrijk boðið í þennan 23 ára gamla markvörð en ekki kemur fram hvort Viking hafi samþykkt tilboðið.

Patrik Sigurður er uppalinn Bliki en gekk ungur að árum til liðs við Brentford á Englandi. Þaðan var hann lánaður til Southend United, Viborg og Silkeborg í Danmörku áður en hann samdi við Viking. Þar hefur hann verið síðan 2021 en gæti nú verið á leið til Belgíu.

Patrik Sigurður á að baki 4 A-landsleiki fyrir Ísland og 26 leiki fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×