Handbolti

„Fannst ég ekki bæta mig nægi­lega mikið á þessum tveimur árum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Viktor Gísli stefnir alla leið í handboltanum og ætlar sér að spila til úrslita um Meistaradeildartitilinn, einn daginn.
Viktor Gísli stefnir alla leið í handboltanum og ætlar sér að spila til úrslita um Meistaradeildartitilinn, einn daginn. vísir/bjarni

Landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta leikur með pólsku meisturunum á næsta tímabili. Hann segist hafa viljað komast aftur í umhverfi þar sem unnið er með markmannsþjálfara alla daga.

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur ákveðið að yfirgefa herbúðir franska liðsins Nantes og ganga til liðs við pólsku meistaranna í Wisla Plock. Viktor var samningsbundinn Nantes til ársins 2025 en hefur nú fengið sig lausan.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Mér fannst vera betri tækifæri þarna. Það er markmannsþjálfari þarna sem ég get unnið með á hverjum degi meðan það var ekki í Nantes. Þetta er síðan hörkulið með bjartar vonir og þeir ætla að byggja upp stórlið,“ segir Viktor Gísli í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

Hann segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að vera án markmannsþjálfara.

„Ég hef verið með markmannsþjálfara síðan ég byrjaði. Pabbi var að þjálfa mig frá því að ég byrjaði í handbolta og lét hann mig gera aukaæfingar. Síðan þá hef ég alltaf verið með einhvern til að tala við og skiptast á hugmyndum. Þetta voru fyrstu tvö árin mín þar sem ég var ekki með það á hverjum degi. Mér fannst ég ekki bæta mig nægilega mikið á þessum tveimur árum.“

Markvörðurinn mun leika með pólska liðinu á næsta tímabili en Wisla Plock varð meistari í vor í fyrsta sinn síðan árið 2011 en Kielce hafði tekið titilinn 12 tímabil í röð. Hann gerir eins árs samning við félagið en Viktor hefur verið orðaður við stærstu klúbba Evrópu, eins og til að mynda við Barcelona.

„Ég ákvað að byrja bara á einu ári. Síðan sé ég til eftir tímabilið og ákveð þá næstu skref. Ég vildi ekki binda mig of lengi við eitt félag.“

Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×