Fótbolti

Segja að Alexander-Arnold verði fórnað fyrir Gallagher

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tilraunin að láta Trent Alexander-Arnold spila á miðjunni hefur ekki heppnast sem skildi hjá Gareth Southgate.
Tilraunin að láta Trent Alexander-Arnold spila á miðjunni hefur ekki heppnast sem skildi hjá Gareth Southgate. getty/Image Photo Agency

Eftir að hafa byrjað fyrstu tvo leiki Englands á EM verður Trent Alexander-Arnold líklega á bekknum þegar Englendingar mæta Slóvenum á morgun.

Alexander-Arnold, sem spilar alla jafna sem hægri bakvörður fyrir Liverpool, fékk tækifæri á miðjunni gegn Serbum og Dönum en var tekinn snemma af velli í báðum leikjunum.

Enskir fjölmiðlar greina nú frá því að Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hafi séð nóg og muni taka Alexander-Arnold út úr byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Slóveníu.

Conor Gallagher, leikmaður Chelsea, mun að öllum líkindum taka stöðu hans á miðju enska liðsins. Hann kom inn á sem varamaður fyrir Alexander-Arnold gegn bæði Serbíu og Danmörku.

Enska liðið er á toppi C-riðils með fjögur stig og dugir jafntefli gegn Slóveníu til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×