Fótbolti

Sjáðu „markið“ sem þurfti margar mínútur til að dæma af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Simons skilur ekki af hverju markið hans var dæmt af.
Xavi Simons skilur ekki af hverju markið hans var dæmt af. Getty/Ian MacNicol

Hollendingum þótti á sér brotið þegar mark var dæmt af liðinu í markalausu jafntefli á móti Frakklandi á Evrópumótinu í fótbolta í gær.

Xavi Simons kom boltanum í markið á lokakafla leiksins og hann var aldrei rangstæður. Það var hins vegar dæmt rangstaða á Denzel Dumfries sem kom aldrei við boltann en stóð við hlið markvarðarins Mike Maignan.

Myndbandsdómarar voru á því að Dumfries hefði truflað Denzel Dumfries í franska markinu og þess vegna var markið dæmt af.

Ólíkt öðrum atvikum sem hafa verið skoðuð á mótinu þá tók mjög langan tíma til að fá niðurstöðu frá VAR-herberginu.

Ronald Koeman, þjálfari Hollendinga, var mjög ósáttur með að fá ekki markið dæmt gilt.

„Það er satt að Dumfries er í rangstöðu en hann er ekki að trufla markvörðinn. Þegar það er raunin þá er þetta löglegt mark að mínu mati,“ sagði Koeman.

„Þurftu þeir fimm mínútur til að skoða þetta af því að þetta var svona erfitt? Ég skil þetta ekki. Hann er ekki að trufla markvörðinn,“ sagði Koeman.

„Þótt að mér hafi fundist þetta mark eiga að standa þá tek ég það frá þessum leik að þetta séu sanngjörn úrslit,“ sagði Koeman.

Fyrirliðinn Virgil van Diyk var á því að markið ætti að standa en Xavi Simons sjálfur talaði um að það væri ekki til neins að kvarta. „Var tekur sína ákvörðun og það er ekkert hægt að gera við því,“ sagði Xavi Simons.

Það má sjá þetta umdeilda mark ásamt svipmyndum frá leiknum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×