Fótbolti

Hóta því að hætta keppni á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbar töpuðu á móti Jude Bellingham og félögum í enska landsliðinu í fyrsta leik sínum á EM.
Serbar töpuðu á móti Jude Bellingham og félögum í enska landsliðinu í fyrsta leik sínum á EM. Getty/Richard Pelham

Serbar eru mjög ósáttir með söngva stuðningsmanna Króatíu og Albaníu á leik þjóðanna á Evrópumótinu í knattspyrnu í gær.

Serbneska knattspyrnusambandið hefur meira segja gengið svo langt að hóta því því draga lið sitt úr keppni á Evrópumótinu.

Í leik Króatíu og Albaníu í gær þá urðu stuðningsmenn nágranna Serba uppvísir að því að syngja ljóta söngva um Serbana.

Ríkismiðillinn RTS segir frá því að stuðningsfólkið hafi meðal annars sungið: „Drepið, drepið, drepið Serba“.

Það lítur fyrir að bæði stuðningsmenn Albaníu og Króatíu hafi sungið þessa níðsöngva.

Jovan Surbatovic, framkvæmdastjóri serbneska sambandsins, segir framkomuna vera algjört hneyksli. Hann vill að evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, taki hart á þessu.

„Þetta er skandall og við heimtum að UEFA sekti fyrir þetta. Ef ekki þá munum við íhuga það að draga landslið okkar úr keppni,“ sagði Surbatovic við RTS.

„Við munum biðja UEFA um að refsa báðum knattspyrnusamböndum. Við viljum ekki taka þátt í þessu móti ef UEFA finnst þetta vera í lagi,“ sagði Surbatovic.

Serbar töpuðu 1-0 á móti Englandi í fyrsta leik sínum á EM en eiga eftir að mæta Slóveníu og Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×