Innlent

Loka vinnu­skólanum og leik­skóla­börnum haldið innan­dyra

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Gosmóðan sést víða.
Gosmóðan sést víða. Vísir/Einar

Vinnuskóla Kópavogs auk Vinnuskóla Reykjavíkur var lokað í dag og starfsmenn sendir heim sökum slæmra loftgæða af völdum gosmengunar. Þá verður leikskólabörnum í Kópavogi haldið innandyra og ekki send í útivist í dag af sömu ástæðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Eins og greint hefur verið frá er þó nokkur gosmóða yfir höfuðborgarsvæðinu í dag en óholl loftgæði mælast vegna þessa í Vatnsendanum í Kópavogi og í Görðum við Sæbrautina í Reykjavík. 

Reykjavíkurborg hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna gasmengunarinnar og biðlar til þeirra sem eru viðkvæmir í öndunarfærum og til barna að forðast útivist í lengri tíma í dag og takmarka áreynslu. „Ekki er mælt með því að láta ung börn sofa út í vagni við þessar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Svipaða tilkynningu hefur verið send foreldrum unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur. Þeir voru sendir heim og fá full laun greidd fyrir daginn.

Mælingar á loftgæðum eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar.


Tengdar fréttir

Gosmóða yfir höfuðborgarsvæðinu í dag

Aðeins meiri virkni var í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni í nótt en daginn áður og gígurinn ansi líflegur að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×