Fótbolti

„Má ekki van­meta gæðin sem við búum yfir“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Memphis hefur skorað 45 mörk fyrir hollenska landsliðið.
Memphis hefur skorað 45 mörk fyrir hollenska landsliðið. EPA-EFE/PIETER STAM DE JONGE

„Mér líður vel, þetta var góð frammistaða hjá okkur,“ sagði Memphis Depay, leikmaður Hollands, eftir 4-0 sigur á Íslandi á mánudagskvöld. Um var að ræða síðasta leik Hollands áður en liðið fer til Þýskalands þar sem Evrópumót karla í knattspyrnu hefst á föstudaginn kemur.

Memphis, sem er nú án félags eftir að hafa spilað með Atlético Madríd á Spáni, ræddi við Val Pál Eiríksson eftir leikinn í Rotterdam.

Klippa: Memphis eftir sigur á Íslandi

„Við byrjuðum leikinn vel og höfðum fulla stjórn á honum svo maður er með góða tilfinningu að leik loknum,“ sagði hinn þrítugi Memphis um leikinn. Honum tókst að skila boltanum í netið en það mark var dæmt af þar sem samherji hans handlék knöttinn í aðdraganda marksins.

„Við þekkjum Ísland, það er erfiður mótherji. Við undirbjuggum okkur mjög vel og ég tel að það hafi verið hugarfar okkar í leiknum. Ætluðum ekki að leyfa Íslandi að spila á okkar vallarhelming og ég tel okkur hafa gert það. Það hefur ekki alltaf gengið þar sem Ísland hefur unnið okkur. Við vissum að við gætum búist við miklu af þeim en við áttum sigurinn án efa skilið.“

„Það má ekki vanmeta gæðin sem við búum yfir. Holland er með góða leikmenn, erum með sterkt lið og ég held að það hafi verið of mikið fyrir Ísland í kvöld [í gær, mánudg].“

„Algjörlega. Alltaf gott [að vinna síðasta leikinn fyrir stórmót], héldum hreinu og skoruðum fjögur mörk. Manni leið eins og þeir hefðu ef til vill getað skorað eitt mark en við jafnframt hefðum getað skorað fleiri. Við vorum mjög hættulegir svo þetta var mjög góður sigur,“ sagði Memphis að lokum.

Viðtalið við Memphis má sjá í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×