Upp­gjör og við­töl: Valur - Stjarnan 4-0 | Ís­lands­meistararnir aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur fékk Stjörnuna í heimsókn.
Valur fékk Stjörnuna í heimsókn. Vísir/Anton Brink

Eftir að hafa tapað síðasta leik gegn Blikum svöruðu Íslandsmeistararnir fyrir sig með sannfærandi 4-0 sigri gegn Stjörnunni. 

Leikurinn fór ansi rólega af stað og það gerðist lítið sem ekkert fyrsta korterið. Valur hélt töluvert betur í boltann en gerði lítið við knöttinn á síðasta þriðjungi.

Eftir fimmtán mínútna leik kom besta færi Vals til þessa. Fanndís Friðriksdóttir átti gott skot með vinstri fæti fyrir utan teig en Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markmaður Stjörnunnar, varði en hún varði boltann beint út í teiginn á Önnu Björk Kristjánsdóttur en aftur varði Auður. Dauðafæri hjá Val.

Heimakonur brutu ísinn á 24. mínútu. Hailey Whitaker átti laglega sendingu inn í teig á Berglindi Rós Ágústsdóttur sem gat ekki annað en þakkað fyrir sig með marki.

Eftir markið gerðist lítið og Valur var 1-0 yfir í hálfleik.

Það tók Val ekki nema fjórar mínútur að skora í síðari hálfleik. Varnarleikur Stjörnunnar leit ekki vel út en Katherine Cousins skallaði lélega hreinsun gestanna beint á Ísabellu Söru Tryggvadóttur sem var með ótrúlega mikið pláss nálægt markinu og gat ekki gert annað en að skora.

Tæplega tuttugu mínútum síðar skoraði Ísabella aftur og gerði þriðja mark Vals. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir sem var nýkomin inn á sem varamaður renndi boltanum fyrir markið og Ísabella skoraði af stuttu færi.

Undir lok leiks fullkomnaði Ísabella þrennuna þegar hún smellhitti fyrirgjöf Camryn Paige Hartman og Auður kom engum vörnum við í markinu.

Íslandsmeistararnir unnu að lokum 4-0 sigur.

Atvik leiksins

Það gerðist minna en ekki neitt í fyrri hálfleik og það var því gulls í gildi fyrir Val að Berglindi Rós Ágústsdóttir hafi tekist að nýta eitt af fáum færum Vals og heimakonur voru yfir í hálfleik. Þetta varð til þess að Stjarnan þurfti að sækja meira og Valskonur nýttu sér það í síðari hálfleik.

Stjörnur og skúrkar

Ísabella Sara Tryggvadóttir, leikmaður Vals, var stjarnan í dag. Hún nýtti færin sín afar vel. Ísabella gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í seinni hálfleik.

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markmaður Stjörnunnar, stóð sig vel og sá til þess að munurinn var ekki meiri. Auður varði vel þegar staðan var markalaus og var hún langbesti leikmaður Stjörnunnar.

Skúrkar dagsins voru varnarmenn Stjörnunnar sem litu afar illa út í fyrirgjöfum Vals sem skilaði fjórum mörkum.

Dómarinn

Bergrós Lilja Unudóttir dæmdi leik dagsins. Bergrós dæmdi leikinn frábærlega og gott betur en það. Bergrós þurfti ekki að taka neina vafasama ákvörðun og komst vel frá sínu. Hún fær 8 í einkunn.

Stemningin og umgjörð

Vallaþulurinn var af dýrari gerðinni fyrir leik. Viktor Unnar Illugason var fenginn til að kynna inn liðin en því miður fyrir áhorfendur sló út rafmagnið í blaðamannastúkunni rétt fyrir leik og taflan sem sýnir stöðuna og mínútur datt út.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var meðal áhorfenda í dag. Ég gat ekki séð betur en að hann hafi verið með stigin fjögur sem hann tók gegn Austuríki í vasanum. 

„Ég er búinn að vera að bíða eftir þessu Ísabella og það var kominn tími á þig“

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ánægður eftir leikVísir/Anton Brink

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ánægður með 4-0 sigur gegn Stjörnunni.

„Mér fannst við keyra upp hraðann í seinni hálfleik og við fundum sendingarnar sem við vildum og þá fór þetta að opnast.“

Fyrri hálfleikur var lokaður og Pétur tók undir að landsleikirnir og pásan sem hefur verið í deildinni hafi spilað inn í.

„Já og það er oft þannig. Það voru ekki margar að spila hjá okkur nema ein og hún var bara á bekknum eins og venjulega. Þetta var fín taktík hjá Stjörnunni en okkur tókst að opna þær í seinni hálfleik.“

Ísabella Sara Tryggvadóttir, leikmaður Vals, skoraði þrennu í seinni hálfleik og Pétur sagðist hafa verið að bíða eftir þessu frá henni.

„Ég er búinn að vera bíða eftir þessu Ísabella og það var kominn tími á þig.“

„Hún stóð sig vel og maður er búinn að vera bíða eftir þessu frá henni og það kom í dag,“ sagði Pétur léttur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira